LIST

Gift cards

Offers

 

Hótel Holt er í raun hótel í listasafni en þar er að finna hluta úr stærsta einkasafni af íslenskri myndlist.


Þorvaldur Guðmundsson og Ingibjörg Guðmundsdóttir voru mikið áhugafólk um listir, menningu og sögu og hefur einkasafn þeirra að geyma flesta gimsteina íslenskrar listasögu. Um er að ræða stærsta einkasafn á Íslandi og líklega þó víðar væri leitað, með alls 1560 verkum en þar af eru um 460 verk á Hótel Holti.


Around 460 works from the collection are on display at Hotel Holt. Þorvaldur and Ingibjörg wanted to give the hotel a distinguishable Icelandic character and so the building was adorned with Icelandic art from the very beginning.


Listaverkin á Hótel Holti eru tölumerkt og í gestamóttöku er hægt að fá frekari upplýsingar sem og leiðsögn um listasafnið á hótelinu ef óskað er.


Segja má að áhugi Þorvaldar á listaverkasöfnun hafi hafist með vináttu hans og Jóhannesar S. Kjarvals, eins ástsælasta listmálara Íslands. Kynntust þeir þegar Þorvaldur var 17 ára gamall að vinna hjá kjötverslun Sláturfélags Suðurlands og fór með matarsendingar á vinnustofu Kjarvals í Austurstræti. Tókst með þeim mikil og ævilöng vinátta og í einkasafni hjónanna er að finna eitt stærsta safn Kjarvalsverka.  Þar á meðal er  Lífshlaupið,  einstakt myndverk sem Kjarval málaði á veggi vinnustofu sinnar á efstu hæð í Austurstræti 12 á árunum 1929–33. Hluti þess hefur verið endurgert sem ljósmynd  á barnum  í Þingholti. Margar af þekktum andlitsteikningum Kjarvals er að finna á bar hótelsins.


Meirihluti þeirra verka sem prýða jarðhæð hótelsins eru málverk og teikningar eftir Jóhannes S. Kjarval  en einnig eru þar málverk annarra frumherja á við Ásgrím Jónsson, Jón Stefánsson, Kristínu Jónsdóttur og Júlíönu Sveinsdóttur. Þar eru jafnframt nokkur áberandi stór tímamótaverk  eins og Konur í saltfiski (1935) eftir Gunnlaug Blöndal,  Áning / Útreiðarfólk (1939) eftir Jón Stefánsson, Konur við síldarsöltun (1940) eftir Jón Þorleifsson, Sveitasæla (c.1955-1960) eftir Gunnlaug Scheving, Töfrar Íslands (1962) eftir Jón Engilberts og tvö verk, Farfuglar (1980) og Án titils (1984) eftir Eirík Smith.

Íslensk myndlist á hótel holti

Höggmyndir / skúlptúrar

Í anddyri hótelsins eru þrír skúlptúrar. Við lyftuna stendur Friðarengillinn úr bronsi (c.1910), eftir Einar Jónsson og næst aðalinngangi eru Framtíðin (c. 1950-55) og Tónar hafsins (1950)  eftir Ásmund Sveinsson.

Á stigapöllum hótelsins eru tveir skúlptúrar úr járni eftir Jón Benediktsson og úr lofti efstu hæðar hangir svifverk úr járni eftir Ásmund Sveinsson. Í Þingholti er bronsverkið Höllin eftir Gerði Helgadóttur og fjögur bronsverk, Heimkoma handritanna, eftir Jón Benediktsson, sem gerð voru að beiðni Þorvaldar og Ingibjargar í tilefni heimkomu hluta handritanna 1971.
Járnhandrið stigans í Þingholti sem liggur niður í fatageymslu staðarins er verk  myndlistarmannsins Jóns Gunnars Árnasonar (1931-1989).

 
 

Veggmyndir / lágmyndir

Gegnt lyftu á göngum hótelsins eru þrjár stórar lágmyndir úr steinleir sem unnar voru fyrir Hótel Holt hjá leirbrennslunni Glit í Reykjavík.  Á  2. hæð  er verkið Iðnaður (1965) eftir Hring Jóhannesson listmálara og verkin Sjávarútvegur (1965)  á 3. hæð og Verslun (1965) á 4. hæð eftir Ragnar Kjartansson myndhöggvara.

Næst innganginum að Þingholti að sunnanverðu er veggmyndin Ásgarður (1974) eftir Ragnar Kjartansson myndhöggvara. Myndefnið á rætur í norrænni goðafræði og er samsett úr nokkrum hlutum sem unnir eru úr steinleir. Þar má greina að:

Óðinn ríður Sleipni, hrafnarnir Huginn og Muninn leiða.
Úlfarnir Geri, Freki og Breki, fylgja eftir.
Einherjar eru förunautar hans.
Þór með hamar sinn bíður þeirra í Þrúðvangi.

Foreign art in hotel Holt

Málverk og skúlptúrar

Í anddyri  og setustofu hótelsins eru m.a. sjávarmyndir frá ströndum Íslands eftir dönsku listmálarana Carl Locher og  Vilhelm Arnesen, en þeir voru með í ferð Friðriks 8. Danakonungs til Íslands í september 1907. Einnig tvær sjávarmyndir eftir Frants Landt  frá ferð hans til Íslands 1936. Þar er einnig að finna málverkið, Færeyskur sjómaður (1963) eftir færeyska listmálarann S.J. Mikines. Sjávarmynd frá Eyrarsundi eftir danska listmálarann Christian Bogø er staðsett í bókastofu hótelsins.

Í Þingholti er að finna elsta málverkið í listasafninu á Hótel Holti, Gudvangen (1883), eftir norska listmálarann  Georg Anton Rasmussen. Í Þingholti eru einnig tvö brons og silfurverk eftir sænska myndhöggvarann Walter Bengtsson, Afródíte (1967) og Stórveldin (1975).

 
 

Steinþrykk

Nokkur gömul Íslandskort og 134 steinþrykk (litógrafíur) eftir teikningum M. August Mayer, listamanns úr leiðangri franska náttúruvísindamannsins Joseph Paul Gaimard um Ísland árin 1835 og 1836, setja sterkan svip á ganga hótelsins.
Myndirnar birtust í miklu riti, Voyage En Islande et au Groënland exécuté pendant les années 1835 et 1836  sem gefið var út í París á árunum 1838-1852.  Árið 1986 gaf Bókaútgáfan Örn & Örlygur út bókina Íslandsmyndir Mayers 1836 þar sem allar myndir úr leiðangri Gaimards voru birtar.
Myndirnar á göngum hótelsins eru  einstakar þjóðlífslýsingar frá Íslandi á 19. öld – mannamyndir, híbýli, hlutir, staðarlýsingar og margt fleira.

Concept, marketing, design & programming by myhotelshop | Copyright © 2023